Vetrarskjól

Vetrarskýling af ýmsum toga

Vetrarskýli af ýmsum toga

Gott er að huga að vetrarskýlingu plantna á meðan jörð er ófrosin og auðvelt er að reka niður stoðir. Það má jafnvel bíða með að setja skýlinguna sjálfa upp þar til veður gerast vályndari svo er líka rétt að minna þá ræktendur á að vorin eru hættulegasti tími fyrir sígrænar plöntur.  Þegar mikil útgufun er og sólin skín þá er mesta hættan á að sígrænu plönturnar geti orðið brúnar eða gular, nema gerðar séu ráðstafanir til að skýla þeim. Skýlinguna er svo hægt að fjarlægja í maí eða þegar öll hætta á næturfrosti er liðin hjá. Mestu skemmdirnar verða yfirleitt í febrúar fram í mars þegar birtir en frost er ekki farið úr jörðu.

Margar tegundir garðplantna eru upprunnar í löndum þar sem vetrinum fylgir vetrarveður, þ.e. frost og snjór í marga mánuði en ekki sífelldar umhleypingar með tilheyrandi vindgnauði. Skynsamir garðeigendur fara því út að haustlagi og undirbúa vetrarskýlingu fyrir viðkvæmari og verðmætari garðplöntur sínar.

Vörn gegn áveðursáttum og morgunsól, hér austur og suður.

Vörn gegn áveðursáttum og morgunsól, hér austur og suður.

Sígrænar tegundir eru fremstar í flokki þeirra tegunda sem þarf að skýla fyrir vetrarveðrum. Sérstaklega á þetta við ungar nýgróðursettar plöntur. Þessar plöntur halda laufinu allan veturinn og því er starfsemi í plöntunum allt árið. Það sem helst fer illa með plönturnar er í fyrsta lagi vindurinn.

Vindur eykur útgufun frá laufblöðum plantnanna og þegar jarðvegur er frosinn ná plönturnar ekki að draga upp vatn í stað þess sem gufar út. Niðurstaðan verður því skrælnuð laufblöð.

Sólfar á vormánuðum hefur sams konar áhrif. Þegar sólin skín hitna laufblöðin verulega og gufa þá út vatni til að kæla sig niður. Plönturnar lenda þá í sama vandamáli við að ná upp vatni í stað þess sem gufar út.

Best er að reka niður staura áður en jarðvegur frýs

Vetrarskýli úr striga

Vetrarskýli úr striga

Hávaxnari plöntum er yfirleitt skýlt með striga. Slíkt vetrarskýli krefst nokkurs undirbúnings. Í október, nóvember eru settir niður 3-4 staurar í kringum plöntuna sem á að skýla og strengdur strigi utaná, allan hringinn. Yfirleitt er ekki nauðsynlegt að loka svona skýli að ofan. Striginn skyggir, loftar, hleypir vatni að og kælir plöntuna niður þegar sólin er sterkust. Best er að reka staurana niður áður en jarðvegurinn frýs. Striginn þarf ekki að fara á staurana strax. Þeir sem vilja hafa jólaljósin ríkjandi fram yfir áramót bíða bara með að setja strigann á staurana þar til eftir þrettándann. Sólin sést hvort eð er ekkert að gagni fyrr en seinna í janúar eða í febrúar og gerir lítinn usla á plöntum á þessum tíma. Gæta þarf að því að striginn snerti ekki plönturnar sem hann á að skýla, þær geta þá skemmst og eins þarf strigaskýlið að ná talsvert upp fyrir plönturnar svo það nái að skyggja almennilega á þær þegar sólin fer á kreik að vorinu svo hún nái ekki að hita blöðin upp. Striginn kemur í veg fyrir að nálar og börkur plantnanna skemmist af völdum ísnála sem berast hratt yfir með skafrenningi.

Ungar sígrænar plöntur eiga oft í erfiðleikum á vorin þegar veður er kalt og bjart. Með aldrinum eiga plönturnar auðveldara með að glíma við þetta vandamál því rætur þeirra ná niður fyrir frostlagið í jarðveginum og þær geta því dregið upp vatn í stað þess sem gufar út.

Lyngrós skýlt með greni að hluta.

Lyngrós skýlt með greni að hluta.

Vetrarskýling með greni

Vetrarskýling með greni

Grenigreinar sem skjól

Striginn er þó ekki eini möguleikinn sem við höfum á vetrarskýlingu plantna þótt hann sé kannski heppilegur kostur fyrir uppréttar plöntur. Jarðlægum plöntum eins og t.d. ýmsum einitegundum er hægt að skýla með grenigreinum. Þær einfaldlega lagðar ofan á plöntuna sem á að skýla og þess gætt að grenið hylji plöntuna að mestu. Gott er að binda grenigreinarnar fastar við plöntuna þannig að þær fjúki ekki í burtu í næsta bálviðri. Það kemur í veg fyrir að greinarnar fjúki af plöntunum þegar síst skyldi. Gott er að endurnýta  grenibúntin þegar þau hafa lokið hlutverki sínu sem jólaskraut og sýna með því hagsýni.

 

Heimildir: http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1260255/  og http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1050860/ og http://www.gardheimar.is/fraedsla/nordinn/nanar/5206/vetrarskyling-grodurs