Í Fossvogsdal eru nokkrir stígar sem liggja í gegnum þéttan gróður. Þegar gengið er um stígana gleymist jafnvel að þeir séu í miðri borginni. Það er sérlega ánægjulegt þegar ekki þarf að fara langt frá heimili sínu, þó inn í miðri borg sé, til að upplifa sig í guðs grænni náttúrunni.
Í kringum stígana er að finna fjölbreyttar tegundir og yrki, trjáa og runna. Hægt er að fylgjast með hvernig þeim reiðir af ár frá ári eftir veðurfari og árstíðum. Merkingar hjálpa áhugafólki að læra og kynna sér tegundir.