Í þessu verkefni var hús endurhannað og stækkað og garðurinn endurgerður að fullu. Við fengum að fylgja verkefninu allt til enda og var garðurinn fullbúinn í lok sumars 2024. Það verður gaman að sjá hvernig gróðurinn mun dafna og vaxa á næstu árum. Markmiðið var viðhaldslítill og stílhreinn garður í góðum tengslum við nútímalegt útlit hússins. Einnig að hindra ekki fallegt útsýnið til Esju og sjávar úr húsi sem og garði.
Nýtt húsið nýtur sín vel inn á milli upplýstra trjánna í vetrarmyrkri.
Hús og garður fyrir endurhönnun mars 2023 við upphaf verkefnis. Það er alltaf gaman að sjá breytingar á verkefnum með myndum fyrir og eftir. Tvö vegleg tré fengu að vera áfram en annars var plantað lágum viðhaldslitlum runnum í ný beðin.
Lágstemmd lýsing vísar leið að inngangi hússins með flottum ljóspollum frá S. Guðjónssyni.
Ljóspollarnir og lýsingin frá þeim koma vel út í vetrarmyrkrinu ásamt fallega hlyninum sem er upplýstur með ljóskastara.
Sláttuvélmenni mun sjá um að halda grasflöt framlóðar óaðfinnanlegri en baklóð er með villtara yfirbragði, lyngtorfi og holtagrjóti. Lóðin er afmörkuð með kantsteini frá Steypustöðinni allan hringinn.
Suðurverönd er lögð flísahellum frá Vídd sem koma sérlega vel út.
Hellulagður þrifkantur er meðfram grasflöt til að auðvelda grassláttinn og ramma fallega inn grasflötina.
Grasflötin er feykilega vel unnin og sléttuð hjá Gulla hjá Gullregn verktökum eins og öll önnur garðverkin á þessari lóð.
Esjan nýtur sín vel í útsýninu frá stofuglugga hússins.
Útsýnið úr heita pottinum er ekki amalegt frá norðurverönd hússins.
Verönd skýlir potti og er vel upplýst í myrkrinu ef óskað er eftir. Öll trévinna var unnin af Andrési hjá Byggingarfélaginu Sakka ehf, úrvals vinna.
Fallegur sólskálinn frá Lágafell verslun er til mikillar prýði lagður flísahellum innan sem utan. Lyngtorfið frá Torf kemur vel út. Timburpallurinn er svo klæddur úrvals bambus pallaefni frá Flexi.is sem tónar við viðarklæðningu hússins.
Fallegt útsýnið nær alla leið að Vatnsenda.
Innilega til hamingju með fallega hús ykkar og garð sem Umhverfisskipulag og ráðgjöf vonar að þið eigið eftir að njóta vel um ókomna tíð.
Nú er þessi garður sem var hannaður af okkur og byrjað var á 2017 orðinn gróinn og fallegur þar sem við fengum að skoða hann í fullum blóma nú í júlí, sjö árum síðar. Gróðursetning hófst þó ekki fyrr en fyrir um fjórum árum. Eigendur hans hafa svo séð um hann af mikilli alúð sem skilar sér margfalt og eiga hrós skilið. Innilega til hamingju með fallega garðinn ykkar.
Þessi garður var ómótaður þegar skipulag og teiknivinna hófst að lokinni þarfagreiningu. Hér verður farið yfir útkomuna sem við óskum eigendum innilega til hamingju með og greinilegt að verkið hefur verið unnið af fagfólki frá a-ö enda mjög vel tekist að fylgja hugmynd að veruleika. Einnig þökkum við kærlega fyrir að fá að sýna hér þennan fallega garð.
Á suðurlóð er timburpallur fyrir grill og góða borðaðstöðu ásamt heitum og köldum potti. Kringum pottasvæði er góður skjólveggur með fallegri lýsingu og þrepin eru einnig upplýst. Grasflöt er í kringum pallasvæði og er hún afmörkuð með hellum sem er bæði til prýði og nýtast einnig sem þrifkantur fyrir grassláttinn. Grjóthleðslan er svo upplýst að hluta sem bæði dregur athygli frá húsum í kring og undirstrikar náttúrulega fegurð hleðslunnar.
Hér fyrir neðan má sjá myndir þegar byrjað var að hanna garðinn og umhverfi hússins frá upphafi verks að verki í mótun.
Undirgróður eða þekjugróður í beðum er varanlegasta leiðin til að útiloka illgresi og því er lykilatriði að ná að skapa þétta gróðurþekju í plöntubeðum. Nái gróðurinn að þekja allt beðið þarf lítið að hafa fyrir illgresinu sem nær þá ekki að spíra í skugganum sem af þessu hlýst og verður undir í samkeppninni. Hægt er að ná fram góðri botnþekju með ýmsum gróðri, bæði runnum og fjölæringum.
Ýmsir runnar eru breiðvaxnari neðan til en aðrir eins og Alparifs, Hélurifs og Kirtilrifs en einnig Birkikvistur, Dögglingskvistur og Japanskvistur. Þá mynda Glæsitoppar og Glótoppar, Myrtuvíðir og Reyniblaðka líka góða botnþekju sem og jarðlægir runnar eins og Einir, Skriðmispill, jarðlæg Runnamura og Himalajaeinir sem þekur vel.
Eigi plöntur að geta útilokað illgresið verða þær að búa yfir a.m.k. einhverjum og helst flestum af eftirfarandi kostum:
• Að vera fljótar til á vorin – jafnfljótar eða fljótari en illgresið
• Að geta breitt úr sér hratt og þakið stóran flöt
• Að vera fremur skuggþolnar
• Að vera lengi að fram á haustið
Margir fjölæringar eru góðir til að ná þéttri botnþekju, það eru auðvitað breiðvaxnir og jarðlægir eins og Nálapúði, Músagyn, Dvergavör, Postulínsblóm og ýmsir hnoðrar en einnig skuggþolnir eins og Ilmgresi Spessart og Stemma, Fagurblágresi, Nýrnajurt, Dílatvítönn.
Hnoðrar þekja líka vel og má næstum „teppaleggja“ beð og garða með þeim þar sem þeir fá að vera í friði.
Yfirborðsefni í beðin. Þar sem ekki er hægt að koma við botnþekju með gróðri eða fyrst á meðan gróðurinn er að taka við sér mætti nýta yfirborðsefni í beðin eins og líst er hér neðar. Áður en yfirlag er lagt á er nauðsynlegt að skera og hreinsa kanta vel, fjarlægja illgresi í beði og í kringum rótarháls plantna.
Sandur – Áður en sandur er lagður í beðin má þekja jarðveginn með jarðvegsdúk eða dagblöðum. Leggja þarf sandinn út í a.m.k. 10 cm jöfnu lagi (sandur má ekki vera skarpur). Gott er að bæta við sandlagið 2-3 cm annað hvert ár.
Trjákurl – Leggja þarf út 5 cm lag af moltu eða bera á með Blákorni (2 kg./100 ferm.). Kurlið lagt út í jöfnu lagi 7-12 cm allt eftir grófleika. Því grófara kurl, því þykkara má lagið vera. Bæta þarf við kurlið annað hvert ár.
Molta – Leggja þarf moltuna út í 10 cm jöfnu lagi. Gott er að bæta við moltulagið ca 2-3 cm hvert ár.
Nýslegið grasyfirlag – Gras lagt yfir flötinn í 10 cm jöfnu lagi. Bæta má í eftir því sem lagið þynnist. Gagnlegt að nýta grasið svona á stöðum eins og skjólbeltum eða í stærri beð sem eru nokkuð hulin stórum gróðri, þar sem þetta lítur kannski ekkert sérlega vel út.
Fjölæringar eru nær óteljandi og er gríðarlegur fjölbreytileiki í formi þeirra, stærð og lögun. Þeir geta verið allt frá jarðlægum upp í allt að tveir metrar að hæð. Lögun þeirra er sömuleiðis mjög mismunandi allt frá því að taka mjög lítið pláss upp í að breiða verulega vel úr sér geta jafnvel fyllt heilu fermetrana með tímanum, hvort sem er hátt eða lágt.
Oftast er spáð í blómsturtíma og blómsturlit plantnanna en það getur líka verið gaman að spá í lit og lögun laufblaða þeirra sem eru margskonar því oft er blómgunartími fjölæringa aðeins tvær til fjórar vikur. Þeim má þá raða upp þannig að úr verði talsvert líf og hreyfing í beðum þó blómin vanti. Það getur til dæmis verið mjög gagnlegt ef um skuggabeð er að ræða því engar plöntur blómstra án sólar. Dæmi um fjölæringa sem notaðir eru vegna blaðfegurðar eru ýmsar Brúskur, Bjarnarrót, Blágresi, Bronslauf, Dvergavör, Musterisblóm, Postulínsblóm, Stilklauf og Vínlandsroði
Best er að velja lágvaxnari tegundir ef svæðið er vindasamt en einnig geta lágvaxnari plöntur hjálpað til við að beina vindi frá þeim hávöxnu sé þeim plantað saman, hærri aftan til eða í miðju beði og þeim lægri í kring. Einnig er um að gera að nota fjölæringa sem undirgróður í runna og trjábeðum. Hér er dæmi um velheppnað beð þar sem fjölæringurinn lífgar upp á limgerði og fyllir upp í þar sem runninn hefur gisnað með árunum.
Það er um að gera að prófa sig áfram og hafa mottóið „ef planta deyr er það leiðinlegt en skapar líka ákveðið tækifæri fyrir nýja plöntu“ að leiðarljósi en þetta og margt fleira gagnlegt kom fram á afar áhugaverðu fjölæringa námskeiði hjá Gurrý í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á vegum Endurmenntunar Landbúnaðarháskólans sem sótt var í vor. Kosturinn við fjölæringa fram yfir runna er að þá er auðvelt að flytja og færa til ef þeim líður ekki nógu vel þar sem þeim var plantað eða passa þar ekki lengur, nema Bóndarósir og Brúskur vilja ekki láta flytja sig. Einnig er hægt að velja „viðhaldslitlar“ tegundir ef markmiðið er lítið viðhald en blómsæll garður, það eru þá tegundir sem eru ekki skriðular eða taka smá tíma í að koma sér fyrir. Það eru til dæmis Burknar og skrautgrös eins og Bjarnarvingull og Blávingull einnig plöntur með kröftugan vöxt eins og Hjartasteinbrjótur og Austurlandalilja sem og laukplöntur eins og Stjörnulilja og Perlulilja.
Til að hindra vöxt illgresis er mikilvægt að ná góðri botnþekju með gróðurvalinu því þá nær einæra illgresisfræið ekki að spíra. Óhjákvæmilegt viðhald felst þó m.a. í vorhreinsun (visið lauf og stönglar fjarlægt), vökvun, hreinsun illgresis, uppbindingar (eftir þörfum), áburðargjöf og að skipta plöntum þegar þær fara að deyja í miðju eða þegar blómgun minnkar. Plönturnar geta einnig orðið of miklar um sig og er þá þörf á að minnka þær með því að stinga utan af þeim. Best er að velja plöntur eftir jarðvegsgerð og ræktunarskilyrðum til að halda viðhaldi í lágmarki.
Dæmi um snemmblómstrandi tegundir í apríl til maí eru Balkansnotra, Demantslilja, Fjallakögurklukka, Geitabjalla, Huldulykill og fleiri primulur, Nýrnajurt, Perlusjóður, Skógarblámi, Snæstjörnur, Tyrkjaíris, Vetrarblóm og Vorgoði
Dæmi um miðsumars blómstrandi tegundir í júní til júlí eru Alpabjalla, Bjarnarrót, Dvergblálilja, Engjablaðka, Fagurblágresi, Fjallasveipur, Geitaskegg, Hjartarfífill, Ígulstrokkur, Japansmura, Kastaníulauf, Kínahnappur, Logahetta, Mjallarsmæra, Munkahetta, Nunnuþrúgur, Postulínsblóm, Riddaraspori, Snægoðalykill, Venusvagn og Þórsmerkursteinbrjótur.
Dæmi um síðsumars blómstrandi tegundir eru Alpaþyrnir, Berghnoðri, Dvergadrottning, Engjakollur, Fagurhjálmur, Fjallastjarna, Garðabrúða, Garðakobbi, Hraundepla, Hærusunna, Indíánakrans, Japanshnoðri, Kasmírsalvía, Kvöldstjarna, Ljósahnoðri, Mararljós, Musterisblóm, Nálapúði, Nettluklukka, Randagras, Rósatrúður, Silkibygg, Sveipstjarna, Tígurblóm, Urðarhnoðri, Venusvagn og Þyrnihnetulauf.
Dæmi um fjölæringa sem standa lengi í blóma eru Alpadrottning, Dverghjarta, Hjartarblóm og Stjörnublaðka.
Gróðri er plantað til að sinna ýmsum hlutverkum eins og veita skjól, loka einhverju af (bílaplani, inngangi, einkagarði ofl.), limgerði í stað skjólveggs, til prýði, samspil lita og margt fleira. Til þess að vel takist til er mikilvægt að velja réttar tegundir eftir því hlutverki sem þær eiga að gegna, varðandi vaxtarlag og -hraða, stærð og umfang.
Passa verður að velja ekki of hávaxinn gróður þar sem hann má ekki verða of stór, hraður vöxtur eykur þörf á miklum klippingum til að hemja vöxt. Betra er að velja tegundir sem henta í þá hæð sem maður vill ná.
Ef gróðurbeð er t.d. 1 m á breidd við gangstétt eða göngustíg verður að passa að umfang tegunda verði ekki mikið meira en það, því annars kallar það á margar klippingar til að halda gróðrinum í skefjun og hann loki ekki gönguleiðum. Umfangsmiklar tegundir kalla á mikið og gott pláss til að fá notið sín til fulls.
Tegundir sem nota á í limgerði eru valdar út frá því sem á að ná fram t.d. þétt, hægvaxið en sígrænt Sitkagreni.
Eða hraðvaxnar tegundir sem þarfnast klippinga 1-2 var á sumri eins og Víðtegundir.
Ef gróðurinn er til þess fallinn að loka fyrir umferð óviðkomandi gæti t.d. Sunnubroddur átt vel við til að gegna því hlutverki.
Hægt er að nota gróðurinn til að ná fram ákveðnum formum og mismunandi áferð með hinum ýmsu tegundum. Hér eru notuð strá í stað blóma með góðum árangri.
Hluti lóðar eftir breytingar, upphækkuð gróðurbeð. Hellulagður stígur milli palla og fjölbreyttara efnisval ásamt heitum potti. Klifurrósir upp við suðaustur húsvegg.
Sama svæði fyrir breytingar, stór samsettur tímburpallur frá ýmsum tímabilum. Innsta svæði pallsins var lokað af með Fjallarifslimgerði.
Sama svæði fyrirbreytingar, séð frá hinni áttinni. Skjólveggur við enda húsveggjar verður fjarlægður sem og tré í miðjum pöllum.
Hér sést suðausturhluti eftir breytingar. Einfaldur timburpallur úr lerki. Klifurrósabeð við suðaustur húsvegg. Runnagróðurkassi er við enda pallsins og matjurtarreitir þar í framhaldi.
Eitt horn garðsins fyrir breytingar sést á efri mynd, samsettir stallaðir pallar. Ölur á erfiðum stað fyrir miðri gönguleið. Skjólveggur við húshorn.
Á neðri myndinni má sjá eftir breytingar, svæði einfölduð og lögð í sömu hæð. Skipt upp með mismunandi efnum. Vínarhellur lagðar í stíg á milli palla sitt hvoru megin við húsið. Matjurtarbeðum komið fyrir í afmörkuðum reitum og rifs upp við skjólvegg þar sem það þrífst vel í skugga. Trjákurl sett í kringum matjurtarsvæðið. Ölur fjarlægður. Skjólveggur við húshorn er fjarlægður og Fjallarifslimgerði fært þangað sem veitir skjól og brýtur upp vind sem og að hægja á honum og kemur í veg fyrir vindsveipi. Pallur í stöllum við nágrannavegg fyrir breytingar.
Eftir breytingar er opnað betur á milli svæða og mishæðóttum palli breytt í runnabeð með möl, allt í sömu hæð og pallur sem fyrir er. Hann fær að halda sér.
Steinabeð og blandað limgerði eftir breytingar, fjölbreyttir runnar og litskrúðugur gróður.
Það sem eigendur lögðu upp með og fannst hafa heppnast vel var:
Skemmtilegra útiverusvæði og gert ráð fyrir heitum potti.
Fengu meiri hlýleika í garðinn með gróðri, sérstaklega upp við hvíta endaveggi og aðgreina svæði garðsins betur.
Fengu ráðgjöf um gróðursamsetningu þannig að gróður blómstri á mismunandi tíma.
Lýsing framan á tröppum vísar vel leiðina að aðalinngangi hússins.
Lýsing aðkomu gerir mikið fyrir húsið og garð þess þegar rökkva tekur og á Íslandi er hún nauðsynleg meiri part ársins. Með lýsingu er hægt að sýna augljóslega hvar aðalinngangurinn í húsið er.
Vel upplýst aðkoma býður gesti velkomna um leið og hún er nauðsynleg póstburðarfólkinu.
Falleg og stílhrein aðkoma undir japönskum áhrifum með einföldu gróðurvali, skýr skil á milli efna og lita.
Hér er lýsingu beint upp vegg sem varðar leiðina að aðalinngangi hússins sem passar vel við stórbrotinn stíl hússins.
Lýsingu er varpað eftir gangstígnum, stórar stiklurnar koma vel út með lágum uppreistum kösturunum.
Hér er notast við lýsingu sem gengur fyrir sólarljósi, það getur komið sér vel þar sem erfitt er að leggja rafmagn.
Fallegar gamaldags luktir passa vel við gamaldags stíl gangstéttar og húss.
Garðeigendur sem eru svo heppnir að eiga garð sem snýr mót suðri og er skjólgóður, geta nýtt hann sem hina ákjósanlegustu auðlind. Hægt að rækta allt mögulegt til nytja eins og salat sem getur gefið af sér a.m.k. fjóra mánuði á ári. Gulrætur, kál, rófur og hvers kyns grænmeti, kryddjurtir, jarðarber og rifs og sólber ofl, og fyrir þrautseiga má spreyta sig á hinum ýmsu ávöxtum. Epli, perur, plómur og kirsuber hafa skilað uppskeru hér á landi og eru fleiri og fleiri að ná tökum á þeirri kúnst. Ávaxtatré geta nefnilega lifað á Íslandi, en aðalatriði er að velja réttu yrkin og fara rétt og vel með þau. Það eru yfir níutíu ár síðan epli þroskuðust fyrst á Íslandi sem sýnir að þetta er hægt.
Ávaxtatré geta verið til prýði en þurfa gott skjól og nóg af sól.
Sólríkur og vel skipulagður grænmetisgarður getur verið til mikillar prýði og ánægju. Ekki er verra að vita til þess að garðræktarþerapía er notuð bæði til uppbyggingar einstaklinga og samfélaga eins og í fangelsum, sannað þykir að hún bæti minni og andlega getu sem og styrki líkamann, einnig getur hún bætt samhæfingu, jafnvægi og úthald. Halda áfram að lesa →
Hér er notaður hvítur dúkur sem skýlir vel en hleypir sól og regnvatni í gegn.
Heimaræktun þarf ekki að vera flókin og né taka mikið pláss, smá skjól fyrir kulda og vindi hjálpar og lengir ræktunartímann um nokkrar vikur jafnvel mánuði. Ef pláss er ekki mikið er gagnlegt að nýta það vel með því að velja grænmeti sem tekur ekki mikið pláss og vex hratt, eins og til dæmis salat af ýmsum gerðum. Klettasalat, Lollo rosso, Sinnepssalat, Landkarsa ofl. Margar salat tegundir má byrja að nota eftir nokkrar vikur sem smáblöð og það margborgar sig, því svo fer vöxturinn í fullan gang. Grænmetiskassi sem er 2-3 fermetrar getur vel dugað salatneyslu 5 manna fjölskyldu heilt sumar eða þar til fer að frysta, það er prýðileg búbót í því og svo er það alltaf ferskt! Halda áfram að lesa →