Nýjasta nýtt frisbígolfvöllur í Fossvogi

Frisbígolfvöllur í Fossvogi

Glöggir vegfarendur í Fossvogsdal hafa líklega tekið eftir nýjum búnaði sem dúkkað hefur upp síðustu daga, en það er frisbígolfvöllur með 9 körfum. Hér er á ferðinni sívaxandi íþrótt þar sem haldnar eru keppnir nokkrum sinnum yfir árið. Í byrjun september verður svo haldið Íslandsmót. Frisbígolfsamband Íslands var stofnað árið 2005 en sumarið 2000 var settur upp fyrsti 9 holu völlurinn á Úlfljótsvatni með heimasmíðuðum plasttunnum. Þeim var síðan skipt út fyrir alvöru körfur sem eru þar í dag. Í júlí 2003 var settur upp 9 holu völlur í Grafarvogi með alvöru körfum. Hann var síðar stækkaður í 18 holur. Þar er nú stærsti völlur landsins með mjög fjölbreyttum brautum. 

Frisbígolf er leikið á svipaðan hátt og venjulegt golf. Í stað golfkylfa og golfbolta nota leikmenn frisbídiska. Þessi íþrótt var mótuð á áttunda áratug síðustu aldar og á það sameiginlegt með venjulegu golfi að reynt er að klára hverja holu í sem fæstum köstum. Folfdisknum er kastað frá teigsvæði í átt að skotmarki sem er “holan”. Þessi hola getur verið mismunandi en oftast er um að ræða sérsmíðaðar körfur. Leikmenn taka hvert kast frá þeim stað þar sem diskurinn lenti síðast. Á vellinum eru ýmsar hindranir eins og tré, lækir og tjarnir en þær eru leikmönnum áskorun og hindrun í tilraunum þeirra við að koma disknum í körfuna. Loks endar “púttið” í körfunni og þeirri holu er þá lokið. Þetta er skemmtileg viðbót við útiíþróttir og útiveru. Brautirnar bjóða upp á þrjá mismunandi teiga eftir getu, svo að allir ættu að geta stundað þessa íþrótt. Hún er því kjörin fyrir alla fjölskylduna. 

Hola4

IMG_1499

Miðlungs teigur

IMG_1502

Erfiður teigur á braut 4

IMG_1503

Aftast bendir rauða örin á „frisbíkörfuna“, hægri örin bendir á létta teiginn og fremst er miðlungs teigurinn.

Fossvogur4
Hér til hliðar má sjá rauða merkið fyrir létta teiginn, fyrir byrjendur og börn. Karfan sem hitta á í sést þar fyrir ofan, framan við gróðurinn.

Nú í byrjun ágúst geta íslenskir frisbígolfspilarar valið úr 14 völlum til að spila á hér á landi. Síðustu daga og vikur hafa nýjustu vellirnir verið að rísa í Laugardal og Fossvogsdal. Til viðbótar eru 4 vellir sem áætlað er að opna í ágúst.

Á heimasíðu folf.is má sjá leiðbeiningar og kennslumyndbönd.

 

Heimild: http://www.folf.is/