Hönnun og skipulag bílastæða hefur áhrif á hegðun fólks.

bad-parking

Myndin er ekki fengin úr rannsókninni og tengist henni ekki 😉

Fólk breytist í smákónga á stórum bílastæðum eins og við Korputorg. Það laðar fram það versta í ökumönnum. Þeir sýna óæskilega hegðun; keyra upp á gangstétt, þó að næg bílastæði séu laus. Því stærri bílaplön þeim mun verri verður hegðunin. Hulda Dagmar Magnúsdóttir skrifaði meistararitgerð í Umhverfis- og auðlindafræði. Verkefnið ber heitið Hegðun fólks á bílaplönum.

4909085930_68b13a5d05

Myndin tengist ekki rannsókninni 😉

Tilgangur verkefnisins var að gera grein fyrir bílastæðamenningu í Reykjavík, viðhorfi almennings og hegðun gagnvart bílaplönum og notkun á þeim. Einnig að kanna hvort mismunandi aðstæður á bílaplönum leiði til mismunandi hegðunar þ.e hvaða þættir í umhverfinu stýra því t.d hvort fólk gengur eða ekur á milli verslana sem tilheyra sama bílaplaninu. Markmiðið er að kanna hversu algengur óþarfa akstur er á bílaplönum og hvort ástæða sé til að leita leiða til að draga úr þessum akstri. Niðurstöðurnar voru að nærri helmingur þeirra sem sáust fara á milli staða á sama bílaplani fóru akandi.

Skipulagstengdir þættir eins og hæfilegar göngulengdir, góðar tengingar og skjól hafa mikið að segja en þessir þættir þurfa að fara saman og styðja hver við annan til að hafa teljandi áhrif á hegðun fólks. Bæði of lítið og of mikið framboð af bílastæðum stuðlar að óæskilegri hegðun ökumanna og eykur líkur á að bílum sé lagt ólöglega. Það er unnt að hafa áhrif á hegðun fólks með stefnumótandi aðgerðum og draga með þeim hætti úr umfangi bílaplana. Algengustu og áhrifaríkustu aðferðirnar eru gjaldskyld bílastæði og skilgreindur hámarksfjöldi bílastæða á hverju svæði.

Korputorg_bilalagningAthugað var hvort fólk keyri á milli staða á sama bílaplaninu eins og á Korputorgi. Hvernig leggur fólk bílum sínum og hvernig eru þau nýtt. Í svörum úr spurningum mátti lesa að fólk hagaði sér verr en það vildi játa eða taldi sig gera.

Framboð af bílastæðum skiptir máli, ekki hafa bílaplönin of stór og mörg stæði ónotuð. Skeifan gerir ekki ráð fyrir gangandi fólki og er eitt risastórt malbikað svæði. Spöngin kemur betur út fyrir gangandi. Við Háskólann leggur fólk á einum stað og gengur á milli bygginga. Bílastæði taka mikið landrými og þarf því að vanda skipulag þeirra betur.

Korputorg
Korputorg Engin íbúabyggð er áætluð nær svæðinu en sú sem næst er nú þegar í Grafarvogi og Grafarholti. Samkvæmt deiliskipulagi er svæðið sérstaklega hannað fyrir akandi umferð. Samkvæmt því eru kvaðir um eitt bílastæði að lágmarki á hverja 35m2 af verslunarhúsnæði og eitt bílastæði að lágmarki á hverja 50m2 af lagerhúsnæði. Alls gerir deiliskipulagið ráð fyrir 1.399 bílastæðum á lóðinni.
Einnig er lögð áhersla á gróðursetningu innan lóðarinnar og að gróður þeki a.m.k 5% af bílaplaninu og að 7m breitt gróðurbelti fylgi lóðarmörkunum. Þrátt fyrir skýrar kvaðir um frágang lóðar er gróður eingöngu á hringtorgum við aðkomu auk lúpínu sem þekur beðið á bílaplaninu. Svæðið er opið og berskjaldað fyrir stífri austanáttinni og er þar oft talsverður strekkingur á öllu svæðinu.

Spöngin GrafarvogiSpongin

Byggingarnar mynda u-laga kjarna með bílaplani í miðjunni. Lítið torg er í NV horni svæðisins. Lítið er um gróður, aðeins á hringtorgi við aðkomu og í beði á torginu. Deiliskipulag svæðisins var samþykkt 1997 og er svæðið að mestu leyti samkvæmt því en þó með fleiri bílastæðum en sýnd eru á deiliskipulaginu, eða tæpum 500 bílastæðum alls. Ágætt aðgengi er fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur úr nærliggjandi íbúðarhverfi.

Skeifan-Fen Skeifan

Í gildandi deiliskipulagi frá árinu 2001 er áhersla á fjölgun bílastæða og er tekið fram að sýnd bílastæði á skipulagsuppdrættinum séu eingöngu til viðmiðunar því lóðarhöfum er heimilt að koma fyrir fleiri bílastæðum sé þeim það fært. Gróður umlykur svæðið en lítið er um græn svæði eða gróðurþekju inn á svæðinu að undanskildum trjáröðum á stöku stað. Almennt er þarna nokkuð skjólgott og eru ágætar tengingar við íbúðahverfin í kring en slakar tengingar inni á svæðinu á milli staða. Ekki góð aðstaða fyrir gangandi og hjólandi inn á svæðinu.
Upphaflega var svæðið skilgreint sem iðnaðarsvæði en samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 var allur reiturinn skilgreindur sem athafnasvæði en er í endurskoðun og verður einkum gert ráð fyrir verslun, skrifstofum, þjónustu og íbúðum.

Svæði Háskóla ÍslandsHaskoli Íslands

Á háskólasvæðinu er byggð dreifð og svæðið er nokkuð stórt. Það nær yfir 3 deiliskipulög. Ágætar tengingar eru við nærliggjandi hverfi og milli bygginga einnig eru bílastæðin nokkur við hverja byggingu en tvö stór bílaplön eru við sitthvorn enda Sæmundargötu. Góð aðstaða er fyrir gangandi og hjólandi en fara þarf þó yfir nokkrar götur. Gróðurnotkun er talsverð víða á svæðinu, mesti berangur er þó við Sæmundargötu en almennt er svæðið nokkuð skjólgott.Deiliskipulagsbreyting frá 2005 gerir ráð fyrir fækkun bílastæða úr 200 í 119 vegna aukins byggingamagns. Hafnar eru gjaldtöku fyrir bílastæði til að draga úr bílastæðanotkun og ekki er minnst á reiðhjólastæði í gildandi deiliskipulögum. 2013 eru nemendur og starfsfólk um 18.000 manns og því ljóst að töluverður fólksfjöldi fer um svæðið.

Háskólasvæðið er svæði þar sem flestir telja líklegast að þeir gangi á milli bygginga, þ.e. leggi bara einu sinni. Einnig kom Spöngin nokkuð vel út að þessu leyti. Fæstir töldu líklegt að þeir myndu ganga á milli staða á Skeifusvæðinu og á Korputorgi. Fólk taldi skjól, góðar göngutengingar og hæfilegar vegalengdir á milli viðkomustaða mikilvægast í því að stuðla að því að fólk gangi á milli staða.

Áhugavert er hversu stuttar stystu eknu leiðirnar voru. Helst á Korputorgi og Spönginni var ekið jafnlanga vegalengd milli bílastæða eins og algengast var að sé gengin. Það er því áhyggjuefni ef full frískt fólk keyrir á milli bílastæða sem hæglega er hægt að ganga og því verðugt verkefni fyrir skipuleggjendur að reyna að draga úr akstri á svo stuttum vegalengdum og lengja þær vegalengdir sem fólk getur farið gangandi. Hlutfall þeirra sem töldu umhverfið mikilvægt hækkaði samfara hækkandi aldri svarenda rannsóknarinnar. Einnig kom í ljós við vöktun svæðanna að erfiðast er að finna bílastæði við Háskólann sem gæti haft áhrif á hversu margir ganga þar á milli staða.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna og er mikilvægt að hafa í huga við hönnun:

  • Hæfilegar vegalengdir, góðar göngutengingar og skjól þurfa að fara saman til að stuðla að aukinni göngu vegfarenda.
  • Mikilvægt að bjóða upp á hæfilegan fjölda bílastæða því bæði of lítið og of mikið framboð stuðlar að óæskilegri hegðun ökumanna.
  • Ökumenn eiga ekki að geta komist nær áfangastað akandi en ætlast er til. Hindra þarf að bifreiðar komist inn á svæði ætluð gangandi vegfarendum þar sem ökumenn leitast gjarnan við að aka eins langt og þeir komast.