Hlíðargarður er skrúðgarður í Kópavogi. Hann var mikið notaður af íbúum bæjarins við hvers kyns uppákomur 17. júní og þess háttar viðburði hér áður fyrr, en hversu margir ætli muni eftir honum í dag? Hann er fallegur garður sem er umkringdur íbúðarhúsum á alla kanta og því vel falinn þeim sem ekki vita af honum. Íbúar í nágrenni við hann nýta hann væntanlega vel en það er þess virði að leggja lykkju á leið sína til að eiga þar góða stund á góðum degi. Leikskólar bæjarins gerðu sér glaðan dag og héldu þar hátíð árlega í það minnsta fyrir nokkrum árum og vonandi enn þann dag í dag.
Í gegnum áranna rás hefur garðurinn breyst töluvert, upprunalegt skipulag Hlíðargarðs er frá því um 1955 eftir Jóhann Schröder. Hermann Lundholm gróðursetti í garðinn en hann var garðyrkjuráðunautur Kópavogsbæjar frá 1958 og sá hann um garðinn allt til ársins 1989. Hlíðargarður var skipulagður í endurreisnarstíl evrópskra hallargarða og var hann endurnýjaður 2003 þar sem formfesta garðsins var undirstrikuð enn frekar með minni rýmismyndun og opnari svæðum, minni gróðurþekju og nútímalegra yfirbragði. Hann er staðsettur á milli íbúðarhúsa við Hlíðar- og Lindarhvamm. Garðurinn er samhverfur en það er þegar miðlína liggur í gegnum garðinn og báðar hliðar spegilmyndir hvor af annari. Í kringum garðinn var plantað skjólbelti og hefur það gert þennan garð að skjólsælli vin.
Þó að myndirnar eftir breytingu séu teknar um haust sést greinilega hvað öll svæði eru mun opnari og stærri rými. Áður fyrr var hringlaga tjörn með gosbrunn í garðinum en nú er ferhyrnd tjörn með meira plássi í kring fyrir gesti garðsins.
Myndir í einkaeigu og sóttar á vef:
http://www.flickr.com/photos/hermannhermannhermann/4746969971/
http://farm5.staticflickr.com/4097/4746667375_1262393b13_z.jpg
http://www.kopavogur.is/files/utivistarsvaediKopavogs.pdf