Um er að ræða malbikaðan og upplýstan hjólastíg, þar sem vel hefur tekist til í samstarfi tveggja sveitarfélaga. Þetta er samgöngustígur sem tengir núverandi stígakerfi í Mosfellsbæ við stígakerfi í Reykjavík. Möguleikar hjólreiðamanna að komast beina leið milli sveitarfélaganna batna til muna og leiðin milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar styttist töluvert. Nýi hjóla- og göngustígurinn liggur sunnan og austan Vesturlandsvegar frá Hlíðartúnshverfi í Mosfellsbæ, gegnum skógræktarsvæði Mosfellinga við Hamrahlíð, og tengist nýju stígakerfi Reykjavíkur við Bauhaus.
Fallegt er hvernig stígurinn er látinn flæða í gegnum skógræktarsvæði Mosfellinga í Hamrahlíð og hefur þar tekist vel til.
Öryggi hjólandi vegfarenda eykst til muna fjarri umferðargötum og vonandi að fleiri nýti sér þennan ferðamáta þar sem miklum hefur verið til kostað.