Greinasafn fyrir flokkinn: Pistlar

Fjölbreytileiki fjölæringa

Grundagerðisgarður í Reykjavík – fjölskrúðugt blómahaf

Fjölæringar eru nær óteljandi og er gríðarlegur fjölbreytileiki í formi þeirra, stærð og lögun. Þeir geta verið allt frá jarðlægum upp í allt að tveir metrar að hæð. Lögun þeirra er sömuleiðis mjög mismunandi allt frá því að taka mjög lítið pláss upp í að breiða verulega vel úr sér geta jafnvel fyllt heilu fermetrana með tímanum, hvort sem er hátt eða lágt.

Hraunbúi, jarðlægur fjölæringur sem myndar breiður og því góð þekjuplanta
Kastaníulauf, einn af hæstu fjölæringunum. Allt að tveir metrar á hæð.

Oftast er spáð í blómsturtíma og blómsturlit plantnanna en það getur líka verið gaman að spá í lit og lögun laufblaða þeirra sem eru margskonar því oft er blómgunartími fjölæringa aðeins tvær til fjórar vikur. Þeim má þá raða upp þannig að úr verði talsvert líf og hreyfing í beðum þó blómin vanti. Það getur til dæmis verið mjög gagnlegt ef um skuggabeð er að ræða því engar plöntur blómstra án sólar. Dæmi um fjölæringa sem notaðir eru vegna blaðfegurðar eru ýmsar Brúskur, Bjarnarrót, Blágresi, Bronslauf, Dvergavör, Musterisblóm, Postulínsblóm, Stilklauf og Vínlandsroði

Dvergavör, skrautleg þekjuplanta vegna marglitra laufblaða
Fjölbreytilegt fjölæringabeð í Yndisgarðinum í Fossvogi

Best er að velja lágvaxnari tegundir ef svæðið er vindasamt en einnig geta lágvaxnari plöntur hjálpað til við að beina vindi frá þeim hávöxnu sé þeim plantað saman, hærri aftan til eða í miðju beði og þeim lægri í kring. Einnig er um að gera að nota fjölæringa sem undirgróður í runna og trjábeðum. Hér er dæmi um velheppnað beð þar sem fjölæringurinn lífgar upp á limgerði og fyllir upp í þar sem runninn hefur gisnað með árunum.

Fjölæringur fyrir framan limgerði og trjágróður

Það er um að gera að prófa sig áfram og hafa mottóið „ef planta deyr er það leiðinlegt en skapar líka ákveðið tækifæri fyrir nýja plöntu“ að leiðarljósi en þetta og margt fleira gagnlegt kom fram á afar áhugaverðu fjölæringa námskeiði hjá Gurrý í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á vegum Endurmenntunar Landbúnaðarháskólans sem sótt var í vor. Kosturinn við fjölæringa fram yfir runna er að þá er auðvelt að flytja og færa til ef þeim líður ekki nógu vel þar sem þeim var plantað eða passa þar ekki lengur, nema Bóndarósir og Brúskur vilja ekki láta flytja sig. Einnig er hægt að velja „viðhaldslitlar“ tegundir ef markmiðið er lítið viðhald en blómsæll garður, það eru þá tegundir sem eru ekki skriðular eða taka smá tíma í að koma sér fyrir. Það eru til dæmis Burknar og skrautgrös eins og Bjarnarvingull og Blávingull einnig plöntur með kröftugan vöxt eins og Hjartasteinbrjótur og Austurlandalilja sem og laukplöntur eins og Stjörnulilja og Perlulilja.

Stóriburkni er viðhaldslítill ef hann fær frið til að koma sér fyrir í góðu skjóli

Til að hindra vöxt illgresis er mikilvægt að ná góðri botnþekju með gróðurvalinu því þá nær einæra illgresisfræið ekki að spíra. Óhjákvæmilegt viðhald felst þó m.a. í vorhreinsun (visið lauf og stönglar fjarlægt), vökvun, hreinsun illgresis, uppbindingar (eftir þörfum), áburðargjöf og að skipta plöntum þegar þær fara að deyja í miðju eða þegar blómgun minnkar. Plönturnar geta einnig orðið of miklar um sig og er þá þörf á að minnka þær með því að stinga utan af þeim. Best er að velja plöntur eftir jarðvegsgerð og ræktunarskilyrðum til að halda viðhaldi í lágmarki.

Dæmi um snemmblómstrandi tegundir í apríl til maí eru Balkansnotra, Demantslilja, Fjallakögurklukka, Geitabjalla, Huldulykill og fleiri primulur, Nýrnajurt, Perlusjóður, Skógarblámi, Snæstjörnur, Tyrkjaíris, Vetrarblóm og Vorgoði

Fjallakögurklukka er snemmblómstrandi fjölæringur í apríl til maí, lágvaxinn með sígrænt lauf

Dæmi um miðsumars blómstrandi tegundir í júní til júlí eru Alpabjalla, Bjarnarrót, Dvergblálilja, Engjablaðka, Fagurblágresi, Fjallasveipur, Geitaskegg, Hjartarfífill, Ígulstrokkur, Japansmura, Kastaníulauf, Kínahnappur, Logahetta, Mjallarsmæra, Munkahetta, Nunnuþrúgur, Postulínsblóm, Riddaraspori, Snægoðalykill, Venusvagn og Þórsmerkursteinbrjótur.

Geitaskegg blómstrar um miðsumar í júlí og þolir illa flutning

Dæmi um síðsumars blómstrandi tegundir eru Alpaþyrnir, Berghnoðri, Dvergadrottning, Engjakollur, Fagurhjálmur, Fjallastjarna, Garðabrúða, Garðakobbi, Hraundepla, Hærusunna, Indíánakrans, Japanshnoðri, Kasmírsalvía, Kvöldstjarna, Ljósahnoðri, Mararljós, Musterisblóm, Nálapúði, Nettluklukka, Randagras, Rósatrúður, Silkibygg, Sveipstjarna, Tígurblóm, Urðarhnoðri, Venusvagn og Þyrnihnetulauf.

Rósatrúður um 30-50 cm á hæð og myndar þéttar breiður

Dæmi um fjölæringa sem standa lengi í blóma eru Alpadrottning, Dverghjarta, Hjartarblóm og Stjörnublaðka.

Hjartarblóm er eðalplanta, blómviljug og fagur. Þrífst vel í góðu skjóli og nokkuð skuggþolin

Nokkrar góðar leitarvélar og upplýsingavefsvæði má finna á vefnum eins og Félag garðplöntuframleiðenda, Listigarðurinn Akureyri, sem og á nokkrum vefsíðum gróðrastöðva eins og Gróðrastöðin Þöll, Gróðrastöðin Mörk, ágætislisti en án mynda er á Gróðrastöðinni Storð.

Heimildir:

http://www.lystigardur.akureyri.is/uploads/PERENNI.pdf

https://www.gardheimar.is/is/moya/extras/frodleikur/litrikir-fjolaeringar

https://skemman.is/bitstream/1946/25089/1/BS.%20ritger%C3%B0.%20SEH.pdf

Einbýlishúsagarður endurnýjaður

Eigendur þessarar lóðar veittu góðfúslegt leyfi til þessarar birtingar og þökkum við kærlega fyrir það 🙂

Í nóvember 2018 fyrir tveimur árum óskuðu nýir eigendur eftir nýju skipulagi fyrir garðinn sinn, í ljós kom að ýmsum trjám og runnum mátti halda en taka önnur og bætt var við dvalarsvæðum og gróðurhúsi ásamt því að ná fram betra skjóli. Hér má sjá garðinn fyrir og eftir breytingar sem urðu nánast eins og upphaflega var lagt af stað með. Reynt var að halda í og vinna með það sem fyrir var eftir bestu getu og sýna nýjar myndir garðinn nú í sumar 2020 og er hann orðinn sannkallaður listigarður, ekki síst fyrir tilstilli eljusemi eigenda.

Aðkoma fyrir breytingar
Aðkoma eftir breytingar – sorptunnur færðar fjær að bílastæði, hlaðinn veggur endurnýjaður ásamt gróðri.
Aðalaðkoma í garðinn fyrir breytingar.
Eftir breytingar – þrep stækkuð og gróðurbeð grisjað og minnkað og steinhlaðið.
Fyrir breytingar neðan við hús.
Eftir breytingar – sorpgeymslu komið fyrir hjá aukabílastæði og aðkoma að kjallara og neðan lóðar lagfærð, ásamt skjólvegg fyrir betra næði innan lóðar.
Fyrir breytingar á neðri hluta lóðar
Eftir breytingar – neðri hluti lóðar afmarkaður frá efri lóð með hlöðnum vegg og skjólvegg til að útbúa gott dvalarsvæði á miðri lóð við gróðurhús.
Einnig er gengt upp á efri lóð þessa leið með tröppum fyrir enda skjólveggjar.
Fyrir breytingar – steinhlaðnar tröppur fá að halda sér ásamt hlöðnu beði hægra megin
Efri lóð eftir breytingar sama svæði – gott dvalarsvæði, gamlar steinhleðslur fá að halda sér sem mynda tröppur upp á efri lóð ásamt hleðslu við gróðurbeð.
Hlaðið gróðurbeð milli dvalarsvæða
Fyrir breytingar – aðkoma að litlu dvalarsvæði sem týnst hafði í vanrækslu fær endurnýjun lífdaga
Eftir breytingar hellulagður stígur inn að litla dvalarsvæðinu, með því að taka runna kringum steinhleðsluna innst nýtur sólar betur á dvalarsvæðinu.
Eftir breytingar gamla steinhleðslan heldur sér en hreinsuð og lagfærð og útbúið þetta notalega dvalarsvæði með hellulögn í miðju, einnig er gengt niður á þetta litla svæði frá efri lóð eftir gömlum steinhlöðnum þrepum.
Sjónarhorn að stærra dvalarsvæði frá því litla með aðgengi eftir gömlu steinþrepunum.
Fyrir breytingar sama grenitré lengst til vinstri, ösp er fjarlægð ásamt nokkrum runnum en Sýrenur fá að halda sér.
Horft yfir sama svæði eftir breytingar – dvalarsvæðin tvö á miðju lóðar
Sama sjónarhorn fyrir og eftir breytingar – grasflöt sléttuð og rýmkuð. Runnum fækkað og sýrenur njóta sín betur.
Fyrir breytingar horft að götu.
Eftir breytingar – trjám fækkað og beð við götu minnkað. sem og við hús.
Fyrir breytingar – steinhleðsla við litla dvalarsvæðið
Eftir breytingar – litla dvalarsvæðið hellulagt, hreinsuð steinhleðslan með ýmsum fjölæringum og gróður fjarlægður fyrir ofan hleðsluna framan við limgerði en möl og stiklum komið fyrir til að bæta aðgengi um garðinn.

Heimaræktun er sjálfbær

Ræktunarkassi með loki verndar frá sáningu til uppskeru. Akríldúkur hleypir birtu inn og raka út, heldur betur hita og rigning nær að vökva plönturnar þegar rignir.

Nú þegar útlit er fyrir að grænmeti geti orðið vandfundnara en áður er um að gera að huga að því hvort heimaræktun sé möguleg. Hafa þarf aðgengi að garði, einkagarði, sameiginlegum eða leigja á vegum bæjarfélaga. Einnig hjálpar að hafa áhuga, tíma og smá þolinmæði. Það eru mikil forréttindi að geta gengið út í garð og náð í krydd eða aðrar matjurtir fyrir máltíð.

Þá þarf að huga að skipulagi og hvar sé best að staðsetja ræktunarsvæðið. Gott er að hafa ríkulega sól úr austri og suðri sem og gott skjól. Hægt er að afmarka ræktunarsvæðið á marga vegu með viðar ramma, kurli eða möl. Upphækkað eða ekki, allt eftir óskum og aðstæðum.

Gott er að hafa í huga:

• Að umgjörð og frágangur sé til prýði allt árið
• Undirbúa jarðveg vel með góðum lífrænum næringarefnum
• Tryggja má hringrás lífræns úrgangs með moltukassa
• Fagleg ráðgjöf í byrjun getur skipt sköpum, sérstaklega ef um stærri verkefni er að ræða
• Huga að þátttöku allra aldurshópa
• Upphækkuð ræktunarbeð geta auðveldað hreyfihömluðum og eldri borgurum að stunda ræktun.

Það má teikna ræktunarreiti upp og setja inn í heildarskipulag garðsins.
Kurlstígar á milli beða sem má mynda eins og hugmyndarflugið leyfir.
Teikna upp útlit áður en byrjað er.
Mynd frá Ragnheidur Maisol.
Hér gerðu samhentir íbúar í fjölbýli skemmtilega lausn, sem lítur vel út. Neðst má finna hlekk á skemmtilega lýsingu með myndum og frásögn þeirra af facebook.

Það er jú umhverfisvænt að borða úr heimabyggð, það minnkar kolefnisfótsporið og eykur sjálfbærni.

Meðfylgjandi hlekkir vísa í fleiri greinar og gögn tengd heimaræktun.

Góða skemmtun og gangi ykkur vel.

https://skjol.hvsk.is/leidbeiningar/Leidb-Hvsk-Borgarbuskapur.pdf

https://www.facebook.com/groups/61097954674/

Áhrif frá Víetnam í landslagsmótun í Evrópu?

Landslagshönnun í Evrópu mótuð undir áhrifum frá Víetnam? Til að akuryrkja sé möguleg í bröttum hlíðum Víetnam hafa heimamenn frá örófi alda, hlaðið upp pöllum til að fá sléttlendi til ræktunar hrísgrjóna og er víst mikið sjónarspil allt árið um kring að fylgjast með litabreytingum ræktunar frá nýsprottnum til fullþroskaðra hrísgrjóna. Skærgrænir litir yfir í heiðgula. Úr lofti sjást svo skýrar línur eins og hæðarlínur á kortum.

Landslagshönnuðurinn Charles Jencks hefur hannað víða í Evrópu og einnig Suður Kóreu þar sem sjá má svipuð einkenni, eins og sést vel á meðfylgjandi myndum.

Cells of life eftir Charles Jencks í Jupiter Artland nærri Edinborg.
Byggt á forsögulegum landformum eins og Víetnam og víðar.
Northumberlandia, Newcastle, Englandi, hér breytir Charles Jencks ásamt konu sinni Maggie Keswick kolanámu í þetta undur. Opnum sárum eftir malargröft og námutöku má breyta í margt áhugavert eins og hér var gert.
Parco Portello almenningsgarður í Mílanó er einnig hannaður af Charles Jencks og Andreas Kipar. Hann var byggður yfir gamalt verksmiðjusvæði.

Eco-Geo park í Suður Kóreu 2013, eftur hönnuðina Lily og Charles Jencks.

Heimildir:

https://unusualplaces.org/the-garden-of-cosmic-speculation-in-scotland/ https://www.jupiterartland.org/artwork/cells-of-life. https://www.likealocalguide.com/milan/parco-portello. https://www.lilyjencksstudio.com/ljs-ecoline. https://www.tripadvisor.com/LocationPhotoDirectLink-g186525-d1786893-i105846582-Jupiter_Artland-Edinburgh_Scotland.html

Landmótun í einkagörðum

Áhugavert er að sjá hvað hægt er að forma land sitt á mismunandi vegu og með mismunandi aðferðum, hér er stiklað á nokkrum þeirra. Hugmyndaflug er allt sem þarf.

Grashólar bjóða upp á notalega litla lundi betur en slétt grasflöt og eru áhugaverðir á að líta.
Hér er mynduð upphækkuð grasflöt með járnkanti, stílhreint og flott.
Garður mótaður í lífræn form í þrívídd.
Landmótun með stórum viðardrumbum falla vel að grasbrekkunni.
Hér er mynduð slétt flöt með bekkjum en hlaðinn veggurinn getur einnig myndað skjól, þetta má útfæra víða.
Svipuð hugmynd útfærð á sléttri flöt þar sem grasflái er formaður í kringum setskjólsvæðið sem er afmarkað með trjádrumbum. Þessa hugmynd má útfæra á marga vegu með einfaldari hætti.
Einnig má nýta svona grasfláa víða í görðum til að afmarka svæði og veita skjól.

Heimildir: Myndir sóttar á https://www.pinterest.com/pin

Val gróðurs í ýmis hlutverk

Torg með einföldum formum þar sem samspil lita fær að njóta sín.

Gróðri er plantað til að sinna ýmsum hlutverkum eins og veita skjól, loka einhverju af (bílaplani, inngangi, einkagarði ofl.), limgerði í stað skjólveggs, til prýði, samspil lita og margt fleira. Til þess að vel takist til er mikilvægt að velja réttar tegundir eftir því hlutverki sem þær eiga að gegna, varðandi vaxtarlag og -hraða, stærð og umfang.

Passa verður að velja ekki of hávaxinn gróður þar sem hann má ekki verða of stór, hraður vöxtur eykur þörf á miklum klippingum til að hemja vöxt. Betra er að velja tegundir sem henta í þá hæð sem maður vill ná.

Gróðurinn hefur líklega ekki átt að loka fyrir útsýni úr glugganum.

Ef gróðurbeð er t.d. 1 m á breidd við gangstétt eða göngustíg verður að passa að umfang tegunda verði ekki mikið meira en það, því annars kallar það á margar klippingar til að halda gróðrinum í skefjun og hann loki ekki gönguleiðum. Umfangsmiklar tegundir kalla á mikið og gott pláss til að fá notið sín til fulls.

Gönguleiðir lokast með tímanum ef tegundir eru of umfangsmiklar.
Hér hefur Alaskaylli verið plantað of nærri gönguleið en hann þarf mikið pláss og vex hratt.

Tegundir sem nota á í limgerði eru valdar út frá því sem á að ná fram t.d. þétt, hægvaxið en sígrænt Sitkagreni.

Sitkagreni er sígrænt, hægvaxið og lokar fullkomlega allt árið.

Eða hraðvaxnar tegundir sem þarfnast klippinga 1-2 var á sumri eins og Víðtegundir.

Víðitegundir vaxa skjótt.

Ef gróðurinn er til þess fallinn að loka fyrir umferð óviðkomandi gæti t.d. Sunnubroddur átt vel við til að gegna því hlutverki.

Sunnubroddur lokar fyrir óviðkomandi umferð með stórum broddum sínum.

Hægt er að nota gróðurinn til að ná fram ákveðnum formum og mismunandi áferð með hinum ýmsu tegundum. Hér eru notuð strá í stað blóma með góðum árangri.

Strá í stað blóma.
Heildarsvipur, samræmd gróðurbeð prýða opinbera byggingu.

Gleymum ekki undirstöðu gróðurs – rótarvænt burðarlag

Jafnvægi milli þess að hellur haggist ekki og gróður dafni getur verið vandfundið.

Þegar gera á endurbætur á garðinum má ekki gleymast að huga að því að nóg verði af næringaríkri gróðurmold vilji maður hafa fallegan gróður í garðinum. Ansi oft í kringum nýbyggingar og þegar verið er að gera upp heilu garðana skipta verktakar út næringaríkum jarðvegi fyrir frostfrítt efni (grjót og möl) á kostnað gróðurmoldar. Þá er ekki hægt að gera ráð fyrir því að stór og falleg tré muni ná að dafna í garðinum, sem og annar runnagróður. Því er mikilvægt að passa upp á að velja gróður sem hentar því undirlagi sem fyrir er eða setja gott undirlag fyrir þann gróður sem rækta á ef það er mögulegt. Á þessari mynd sjást fallegar endurbætur en sjá má að komið hefur verið fyrir frostfríu efni en plássið sem eftir er fyrir gróðurmoldina er harla lítið. Kannski nóg fyrir litla runna eða fjölæringa. Garðyrkjumaðurinn vill nóg af mold fyrir gróðurinn en helluleggjarinn nóg af frostfríu efni til að verk hans haggist ekki í áranna rás. Þarna rekast hagsmunir á og millivegurinn vandfundinn en best er að gróður fái nægilegt magn af rótarvænu burðarlagi. „Með rótarvænu burðarlagi er trjánum tryggt nægjanlegt vaxtarrými í jarðvegslagi sem er þannig uppbyggt að það virkar jafnframt sem burðarlag fyrir gangstéttir og götur, þar af kemur nafnið rótarvænt burðarlag. Uppbygging rótarvæns burðarlags er 80-85% af samkorna grófri möl og 15-20% af ræktunarjarðvegi. Kornadreifing í mölinni þarf að vera þannig að við þjöppun myndist 20% holrými fyrir rætur og jarðveg án þess að það hafi áhrif á burðargetu.“

Oftast má reikna með að rætur þurfi jafnmikið pláss og ofanvöxturinn og því betra að þær geti náð upp næringarefnum allt í kring, því annars vex gróðurinn minna og verður veikburðari og nær jafnvel ekki að þrífast nægilega, einnig verður hann veikari fyrir foki og vondum veðrum.

Heimildhttp://yndisgrodur.lbhi.is/wp-content/uploads/2018/01/Tr%C3%A9-%C3%AD-borgarumhverfi.pdf sótt á vef lbhi.is 26. ágúst 2019.

Endurnýjun og skipulagning hluta lóðar

Hluti lóðar eftir breytingar, upphækkuð gróðurbeð. Hellulagður stígur milli palla og fjölbreyttara efnisval ásamt heitum potti. Klifurrósir upp við suðaustur húsvegg.

Sama svæði fyrir breytingar, stór samsettur tímburpallur frá ýmsum tímabilum. Innsta svæði pallsins var lokað af með Fjallarifslimgerði.
Sama svæði fyrir breytingar, séð frá hinni áttinni. Skjólveggur við enda húsveggjar verður fjarlægður sem og tré í miðjum pöllum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér sést suðausturhluti eftir breytingar.  Einfaldur timburpallur úr lerki. Klifurrósabeð við suðaustur húsvegg. Runnagróðurkassi er við enda pallsins og matjurtarreitir þar í framhaldi.

Eitt horn garðsins fyrir breytingar sést á efri mynd, samsettir stallaðir pallar.  Ölur á erfiðum stað fyrir miðri gönguleið.  Skjólveggur við húshorn.

Á neðri myndinni má sjá eftir breytingar, svæði einfölduð og lögð í sömu hæð. Skipt upp með mismunandi efnum. Vínarhellur lagðar í stíg á milli palla sitt hvoru megin við húsið. Matjurtarbeðum komið fyrir í afmörkuðum reitum og rifs upp við skjólvegg þar sem það þrífst vel í skugga. Trjákurl sett í kringum matjurtarsvæðið. Ölur fjarlægður. Skjólveggur við húshorn er fjarlægður og Fjallarifslimgerði fært þangað sem veitir skjól og brýtur upp vind sem og að hægja á honum og kemur í veg fyrir vindsveipi.
Pallur í stöllum við nágrannavegg fyrir breytingar.

Eftir breytingar er opnað betur á milli svæða og mishæðóttum palli breytt í runnabeð með möl, allt í sömu hæð og pallur sem fyrir er. Hann fær að halda sér.

                                                                                Steinabeð og blandað limgerði eftir breytingar, fjölbreyttir runnar og litskrúðugur gróður.

Það sem eigendur lögðu upp með og fannst hafa heppnast vel var:

  • Skemmtilegra útiverusvæði og  gert ráð fyrir heitum potti.
  • Fengu meiri hlýleika í garðinn með gróðri, sérstaklega upp við hvíta endaveggi og aðgreina svæði garðsins betur.
  • Fengu ráðgjöf um gróðursamsetningu þannig að gróður blómstri á mismunandi tíma.
  • Fengu pláss fyrir matjurtargarð.

 

Þrifkantur fyrir grasflatir

Þrifkantur er hellurönd sem er oft lögð úr 15×30 cm hellum meðfram grasflötum upp við palla eða við hærra yfirborð en grasflötin. Hann er afar gagnlegur og mikið uppáhald þar sem hann gerir kantklippur óþarfar við sumarsláttinn. Allur grassláttur verður auðveldari þar sem sláttuvélinni er rennt eftir helluröndinni sem er lögð í sömu hæð og grasið eða ögn ofar. Með árunum vill grasið þó stundum leita yfir hellurnar og því er nauðsynlegt að kantskera meðfram hellurönd grasflatar til halda grasinu í horfinu og þrifkantinum snyrtilegum.

Vel snyrtur þrifkantur og grasflöt er augnayndi.

Með árunum vill grasið leita inn á þrifkantinn.

Grasið leitar inn á hellulagnir með tímanum.

Grasið hefur leitað inn á þrifkantinn með tímanum.

Þetta verkfæri er bráðsnjallt til að hreinsa milli hellna.

Þá er tekið til hendinni að vori og kantskurðarverkfæri notað til að skera meðfram grasflötinni við hellulögn og þrifkant.

Afrakstur hreinsunar og kantskurðar.

Lóðamörk við götu, ýmsar útfærslur

Viltu skýla garðinum frá veginum? Það er hægt að gera á margan hátt, hér að neðan eru mismunandi útfærslur.

Skjólveggir og gróður á víxl mynda góða lokun.

Flekar úr timbri með blönduðum gróðri fyrir framan sem hylur skjólvegginn nokkuð og milli fleka er plantað sígrænu greni sem lokar allan ársins hring, mjög fjölbreytt.

Gróður með skjólvegg fyrir hluta garðs en annar hluti hans nokkuð opinn. Fjölbreytileiki í gróðri áberandi.

Limgerði úr greni er sígrænt og lokar vel allt árið um kring.

Timburskjólveggur eingöngu myndar góða heildarlokun.