Heimaræktun er sjálfbær

Ræktunarkassi með loki verndar frá sáningu til uppskeru. Akríldúkur hleypir birtu inn og raka út, heldur betur hita og rigning nær að vökva plönturnar þegar rignir.

Nú þegar útlit er fyrir að grænmeti geti orðið vandfundnara en áður er um að gera að huga að því hvort heimaræktun sé möguleg. Hafa þarf aðgengi að garði, einkagarði, sameiginlegum eða leigja á vegum bæjarfélaga. Einnig hjálpar að hafa áhuga, tíma og smá þolinmæði. Það eru mikil forréttindi að geta gengið út í garð og náð í krydd eða aðrar matjurtir fyrir máltíð.

Þá þarf að huga að skipulagi og hvar sé best að staðsetja ræktunarsvæðið. Gott er að hafa ríkulega sól úr austri og suðri sem og gott skjól. Hægt er að afmarka ræktunarsvæðið á marga vegu með viðar ramma, kurli eða möl. Upphækkað eða ekki, allt eftir óskum og aðstæðum.

Gott er að hafa í huga:

• Að umgjörð og frágangur sé til prýði allt árið
• Undirbúa jarðveg vel með góðum lífrænum næringarefnum
• Tryggja má hringrás lífræns úrgangs með moltukassa
• Fagleg ráðgjöf í byrjun getur skipt sköpum, sérstaklega ef um stærri verkefni er að ræða
• Huga að þátttöku allra aldurshópa
• Upphækkuð ræktunarbeð geta auðveldað hreyfihömluðum og eldri borgurum að stunda ræktun.

Það má teikna ræktunarreiti upp og setja inn í heildarskipulag garðsins.
Kurlstígar á milli beða sem má mynda eins og hugmyndarflugið leyfir.
Teikna upp útlit áður en byrjað er.
Mynd frá Ragnheidur Maisol.
Hér gerðu samhentir íbúar í fjölbýli skemmtilega lausn, sem lítur vel út. Neðst má finna hlekk á skemmtilega lýsingu með myndum og frásögn þeirra af facebook.

Það er jú umhverfisvænt að borða úr heimabyggð, það minnkar kolefnisfótsporið og eykur sjálfbærni.

Meðfylgjandi hlekkir vísa í fleiri greinar og gögn tengd heimaræktun.

Góða skemmtun og gangi ykkur vel.

https://skjol.hvsk.is/leidbeiningar/Leidb-Hvsk-Borgarbuskapur.pdf

https://www.facebook.com/groups/61097954674/