Viðskiptavinur okkar sendi okkur þetta skemmtilega myndband af garðinum eftir framkvæmdirnar og þökkum við kærlega fyrir það, virkilega gaman að sjá afraksturinn og óskum honum og fjölskyldunni til hamingju með flottan garð og vel unnið verk.
Fjölskyldan vildi gjarnan fá betri nýtingu út úr garðinum og ákveðið var að setja skjólvegg allan hringinn til að fá meira næði og einnig svo fótboltaleikir barnanna haldist innan lóðar. Skyggni milli veggja í skoti nýtist svo betur sem dvalarsvæði en þar mun einnig verða útgengt í garðinn úr baðherbergi svo ákveðið var að sleppa útisturtunni.
Með góðfúslegu leyfi viðskiptavina fengum við að birta myndir fyrir og eftir endurhönnun garðsins þeirra. Miklar breytingar og eins og sjá má af myndunum tókst vel til. Umhverfis.is sá um hönnunina. Greinilegt er að þeir sem sáu um framkvæmdina sjálfa hafa vandað mjög til verka. Glæsilegt!
Garðurinn var endurskipulagður með betri afmörkun og opnari dvalarsvæðum. Hér á eftir eru myndir fyrir og eftir breytingar. Fyrst má sjá aðkomuna sem var endurnýjuð og þar var útbúið morgundvalarsvæði ásamt nýjum beðum og sorpgeymslu. Gróður er einnig endurnýjaður að mestu á efri hluta lóðar.
Undirgróður eða þekjugróður í beðum er varanlegasta leiðin til að útiloka illgresi og því er lykilatriði að ná að skapa þétta gróðurþekju í plöntubeðum. Nái gróðurinn að þekja allt beðið þarf lítið að hafa fyrir illgresinu sem nær þá ekki að spíra í skugganum sem af þessu hlýst og verður undir í samkeppninni. Hægt er að ná fram góðri botnþekju með ýmsum gróðri, bæði runnum og fjölæringum.
Ýmsir runnar eru breiðvaxnari neðan til en aðrir eins og Alparifs, Hélurifs og Kirtilrifs en einnig Birkikvistur, Dögglingskvistur og Japanskvistur. Þá mynda Glæsitoppar og Glótoppar, Myrtuvíðir og Reyniblaðka líka góða botnþekju sem og jarðlægir runnar eins og Einir, Skriðmispill, jarðlæg Runnamura og Himalajaeinir sem þekur vel.
Eigi plöntur að geta útilokað illgresið verða þær að búa yfir a.m.k. einhverjum og helst flestum af eftirfarandi kostum:
• Að vera fljótar til á vorin – jafnfljótar eða fljótari en illgresið
• Að geta breitt úr sér hratt og þakið stóran flöt
• Að vera fremur skuggþolnar
• Að vera lengi að fram á haustið
Margir fjölæringar eru góðir til að ná þéttri botnþekju, það eru auðvitað breiðvaxnir og jarðlægir eins og Nálapúði, Músagyn, Dvergavör, Postulínsblóm og ýmsir hnoðrar en einnig skuggþolnir eins og Ilmgresi Spessart og Stemma, Fagurblágresi, Nýrnajurt, Dílatvítönn.
Hnoðrar þekja líka vel og má næstum „teppaleggja“ beð og garða með þeim þar sem þeir fá að vera í friði.
Yfirborðsefni í beðin. Þar sem ekki er hægt að koma við botnþekju með gróðri eða fyrst á meðan gróðurinn er að taka við sér mætti nýta yfirborðsefni í beðin eins og líst er hér neðar. Áður en yfirlag er lagt á er nauðsynlegt að skera og hreinsa kanta vel, fjarlægja illgresi í beði og í kringum rótarháls plantna.
Sandur – Áður en sandur er lagður í beðin má þekja jarðveginn með jarðvegsdúk eða dagblöðum. Leggja þarf sandinn út í a.m.k. 10 cm jöfnu lagi (sandur má ekki vera skarpur). Gott er að bæta við sandlagið 2-3 cm annað hvert ár.
Trjákurl – Leggja þarf út 5 cm lag af moltu eða bera á með Blákorni (2 kg./100 ferm.). Kurlið lagt út í jöfnu lagi 7-12 cm allt eftir grófleika. Því grófara kurl, því þykkara má lagið vera. Bæta þarf við kurlið annað hvert ár.
Molta – Leggja þarf moltuna út í 10 cm jöfnu lagi. Gott er að bæta við moltulagið ca 2-3 cm hvert ár.
Nýslegið grasyfirlag – Gras lagt yfir flötinn í 10 cm jöfnu lagi. Bæta má í eftir því sem lagið þynnist. Gagnlegt að nýta grasið svona á stöðum eins og skjólbeltum eða í stærri beð sem eru nokkuð hulin stórum gróðri, þar sem þetta lítur kannski ekkert sérlega vel út.